Fundur hjá Aðgerðarannsóknafélagi Íslands

Miðvikudaginn 9. nóvember 2005 verður fundur á vegum ARFÍ þar sem tveir fyrirlesarar, Örvar Jónsson og Jóhann Haukur Kristinn Líndal munu kynna verkefni á sviði aðgerðarrannsókna fyrir félagsmönnum en þau voru unnin sem meistaraverkefni í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands.

Örvar Jónsson heldur fyrirlestur um verkefni sem heitir Kornflutningar frá Kanada um Ísland (e.Transporting Grain from Canada through Iceland. A Feasibility Study).
Korn er flutt í talsverðu magni frá Kanada til Evrópu um hafnirnar í Churchill við Hudson Bay og Thunder Bay. Meginmarkmið verkefnisins var að rannsaka hvort hagstætt sé að flytja kornið frá Churchill til Íslands á meðan höfnin er opin og dreifa því þaðan til Evrópu. Búið var til flutningalíkan með framleiðslu- og eftirspurnarskorðum auk nauðsynlegra aukaskorða. Lagt var mat á kostnað við núverandi flutningsleiðir og við leiðina um Ísland. Framleiðsla og eftirspurn kornsins var metin, auk þess sem arðsemislíkan fyrir nauðsynlega fjárfestingu á Íslandi var þróað. Kannaðir voru hafnarmöguleikar á Íslandi, líkleg þróun opnunartíma hafnarinnar í Churchill og möguleikar þess að flytja korn í gámum.

Jóhann Haukur Kristinn Líndal heldur fyrirlestur sem heitir Aðgerðagreining á vinnslu á dilkakjöti.
Sýnt er hvernig þrjár mismunandi aðferðir iðnaðarverkfræðinnar, þ.e. hermun, upplýsingatækni og bestun, geta nýst sem hjálpartæki við ákvörðunartöku. Hermilíkan var gert til að skoða ferli kjötvinnslu við útflutning á ferskum lærum og hryggjum. Upplýsingatækni fólst í því að gera forrit sem hjálpar við samanburð á sölu afurða erlendis og innlendis. Bestuninni var ætlað að greina hvernig ætti að ráðstafa því kjöti sem stendur til boða, miðað við tíma sem tekur að vinna hverja og eina vöru, sem takmarkast við þann mannskap og tímamörk sem hann hefur til að vinna vörurnar.

Staður: Tæknigarður, salur inn af kaffistofu
Tími: Miðvikudagur 9. nóvember, 2005, kl. 16.30– 18.00.

Allir velkomnir

Í vinnslu

Nú er stutt í að ARFÍ síðan verði klár. Smá lagfæringar hér og þar og svo að stofna login fyrir aðra stjórnarmeðlimi svo við getum hent inn tilkynningum fyrir haustdagskránna. Smá þolinmæði….