Bestun á sjálfbærri nýtingu lághita jarðvarmasvæða

  • You are here: » Uncategorized » Bestun á sjálfbærri nýtingu lághita jarðvarmasvæða

Mánudaginn 11. nóvember, kl. 16:00 mun Silja Rán Sigurðardóttir halda
fyrirlestur á vegum Aðgerðarannsóknafélags Íslands um bestun á sjálfbærri
nýtingu lághita jarðvarmasvæða. Silja Rán mun segja frá notkun
bestunarlíkana þar sem einfalt forðafræðilíkan er tengt beint við
rekstrar-bestunar líkan sem nota má til að ákvarða hagkvæmustu vinnslu
lághita jarðvarmasvæða og skoða áhrif breytinga á ýmsum forsendum. Silja
Rán varði nýlega doktorsritgerð sína við Tækni og verkfræðideild Háskólans
í Reykjavík og byggir fyrirlesturinn á niðurstöðum rannsókna hennar og
mögulegri hagnýtingu á þeim. Nánari lýsingu á erindinu er að finna hér að
neðan.

Staður: Stofa V110, Háskólinn í Reykjavík
Tími: Mánudagurinn 11. nóvember, 2013, kl. 16:00-16:45.

Kaffiveitingar.

Allir velkomnir,
Stjórn ARFÍ

Útdráttur:
Lághita jarðvarmasvæði eru auðlindir sem gera það kleift að heitt vatn sé
nýtt til húshitunar fyrir heimili eða margskonar atvinnustarfsemi.
Jarðvarmi er talin vera endurnýjanleg auðlind sem komandi kynslóðir munu
geta nýtt sér að því tilskildu að sjálfbær framleiðsla sé höfð að
leiðarljósi. Markmiðið með þessu verkefni er að komast að því hvort hægt
sé að besta sjálfbæra nýtingu á slíkri auðlind.

Ein leið til að útfæra slíka bestun er að tengja forðafræðilíkan beint við
rekstrar-bestunar líkan (e.operational optimization). Slíkt líkan er hægt
að nota til að herma þrýstingsbreytingar í lágvarma jarðhitageymi (e. low
temperature reservoir) með tilliti til framleiðslugetu. Taka má fyrir
tilfelli þar sem hagnaður er bestaður þar sem mikilvægar breytur sem nota
má til að reikna hagnað eru meðal annars, framleiðslustig, vatnshæð
(niðurdráttur) og framleiðslugeta. Þegar bestað er yfir tímabil með
undirliggjandi breytilegri skorðu er oft talað um hreyfina bestun
(e.dynamic optimization). Þetta vandamál er í eðli sínu blendin ólínuleg
hreyfin bestun (e. mixed integer non-linear dynamic optmization) oft
kallað blendin hreyfin bestun (e.mixed integer dynamic optimization).
Þrjár lausnaraðferðir eru ræddar, prófaðar og bornar saman. Að lokum er
mismunandi markföllum beitt til að besta nýtingu jarðvarmakerfa og margs
konar tilvik eru skoðuð miðað við að eftirspurn sem byggð er á sögulegum
gögnum aukist á árs grundvelli.

Um Silju Rán:
Dr. Silja Rán Sigurðardóttir er fædd 7. febrúar 1982 í Reykjavík og
útskrifaðist með stúdentspróf af eðilisfræðibraut frá Menntaskólanum við
Sund vorið 2002. Hún lauk BSc-prófi í iðnaðarverkfræði með áherslu á
aðgerðargreiningu árið 2005 og mastersprófi í stærðfræðilegri
fjármálaverfræði frá University of London, Birkbeck College árið 2008.
Silja hefur meðal annars unnið sem sérfræðingur í útlánaáhættu hjá
Kaupþingi, auk þess sem hún hefur sinnt ýmsum kennslustörfum við HR.