Niðurstaða í samkeppni um meistaraprófsritgerð á sviði aðgerðarannsókna

  • You are here: » Uncategorized » Niðurstaða í samkeppni um meistaraprófsritgerð á sviði aðgerðarannsókna

Miðvikudaginn 16. október verða afhent verðlaun í samkeppni Aðgerðarannsóknafélags Íslands (ARFÍ) um bestu meistaraprófsritgerðina á sviði aðgerðarannsókna. Icelandair styrkir samkeppnina með því að gefa vegleg verðlaun fyrir bestu ritgerðina.

Alls bárust átta ritgerðir í samkeppnina, en höfundar þeirra og heiti voru þessi:
• Bryndís Alexandersdóttir. Kvik kerfislíkön: Meðferðir við lyndis- og kvíðaröskunum.
• Einar Geirsson. Rollout Algorithms for Job-Shop Scheduling.
• Emilía Huong Xuan Nguyen. Customer Churn Prediction for the Icelandic Mobile Telephony Market.
• Guðlaug Jökulsdóttir. The Impact of Demographics on Future Blood Supply and Demand in Iceland.
• Guðríður Lilla Sigurðardóttir. Near-Optimal Staff Scheduling Using a Mixed Integer Model.
• Hörður Ingi Björnsson. Experimental Analysis of Throughput Maximization for Combinatorial Spectrum Auctions.
• Jón Kolbeinn Guðjónsson. Using Simulation to Predict Performance of Salmon Portioning Line.
• Rannveig Guðmundsdóttir. Production Scheduling in a Campaign Based Flexible Flow Shop.

Dómnefnd var skipuð einstaklingum sem hafa mikla þekkingu á fræðilegri og hagnýtri hlið aðgerðarannsókna. Í dómnefnd sátu: Þorkell Helgason fyrrverandi prófessor í reiknifræði við Háskóla Íslands og orkumálastjóri, Kristín Friðgeirsdóttir dósent í aðgerðarannsóknum við London Business School og Sigurður Óli Gestsson stofnandi Rhino-Aviation. Að mati dómnefndar voru allar ritgerðirnar áhugaverðar og sýna mikla grósku á sviði aðgerðarrannsókna á Íslandi. Dómnefndin átti því úr vöndu að ráða en varð engu að síður ásátt um að verðlaunin í samkeppninni hljóti Einar Geirsson fyrir ritgerð hans “Rollout Algorithms for Job-Shop Scheduling”.

Viðfangsefni höfundar snýst um verkniðurröðun sem felst í því að finna bestu eða a.m.k. góða lausn á því hvernig raða eigi niður verkefnum sem kalla á margar mismunandi vinnustöðvar. Vandinn við að finna slíka lausn er sá aragrúi af lausnum sem til greina koma. Höfundur nefnir dæmi um 20 verkefni sem þarf að vinna á 10 mismunandi vinnustöðvum hvert. Þótt dæmið virðist lítið má raða verkefnunum niður á fleiri vegu en nemur aldri alheimsins mældum í míkrósekúndum. Það er því augljóst að ekki er auðvelt að finna bestu lausnina. Höfundur þróar nýjar aðferðir til lausnar á niðurröðunarvandanum og reiknirit sem hann býr til í þessu skyni grundvallast á slembinni leit. Þessu má líkja við skáktölvu sem kannar af handahófi eftir skipulögðum leiðum nokkra mismunandi leiki fram í tímann og nýtir þá vitneskju til að velja næsta leik með hugvitssömum hætti. Reiknirit höfundar geta nýst almennt við verkröðunarvandamál, en margar aðrar aðferðir þarf að laga að hverju viðfangsefni fyrir sig.

Að mati dómnefndar er ritgerðin áhugaverð út frá hagnýtu sem og fræðilegu sjónarmiði. Hún er læsileg og vel framsett. Að mati dómnefndar er höfundurinn vel að verðlaununum kominn.

Verðlaun í samkeppninni verða eins og áður segir afhent á opnum fundi Aðgerðarannsóknafélags Íslands miðvikudaginn 16. október kl 16:00 í stofu 258 í VRII þar sem vinningshafinn mun kynna nánar verkefni sitt.

Allir velkomnir.
Stjórn ARFÍ