Notkun aðgerðarannsókna hjá Georgia-Pacific

  • You are here: » Uncategorized » Notkun aðgerðarannsókna hjá Georgia-Pacific

Þriðjudaginn 29.nóvember mun Gestur Þórisson véla- og iðnaðarverkfræðingur fjalla um notkun aðgerðarannsókna hjá Georgia-Pacific í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði um fjögurra ára skeið. Aðalumræðuefnið verður bestunarlíkan sem Gestur þróaði og notað er fyrir framleiðsluskipulagningu og dreifingu á vörum félagsins. Rætt verður um hvernig líkanið nýtist við áætlanagerð, stefnumótun og hagræðingu í rekstri svo eitthvað sé nefnt. Einnig mun Gestur lauslega fjalla um störf sín er lúta að verðlagningu á vörum félagsins.

Hjá Georgia-Pacific starfa um 55,000 starfsmenn á um 300 starfsstöðvum. Fyrirtækið hefur verið á Fortune 500 listanum frá upphafi og er með um $20 milljarða í veltu. Framleiðsluvörur Georgia-Pacific eru flest það sem búið er til úr trjám svo sem byggingavörur og pappír. Félagið er einn allra stærsti viðskiptavinur flutningafyrirtækja í Bandaríkjunum. Stærstu viðskiptavinir félagsins eru Wal-Mart og Home Depot.

Gestur Þórisson útskrifaðist með B.Sc. frá véla- og iðnaðarverkfræðiskor H.Í. árið 1999 og M.Sc. í aðgerðarannsóknum frá Georgia Institute of Technology árið 2001. Að námi loknu vann Gestur hjá Georgia-Pacific fyrst sem sérfræðingur í aðgerðagreiningu því næst sem yfirmaður framleiðsluskipulagningar og bestunar, og að lokum sem yfirmaður viðskiptaþróunar sölu- og markaðsmála. Gestur flutti heim frá Bandaríkjunum í sumar og starfar nú í fyrirtækjaráðgjöf KB Banka.

Staður: Tæknigarður, salur inn af kaffistofu
Tími: Þriðjudagur 29. nóvember, 2005, kl. 16.30

Allir velkomnir.