Aðalfundur 2007

Aðalfundur ARFÍ 2007 var haldinn í Tæknigarði HÍ, 8.febrúar síðastliðinn.

Farið var yfir ársskýrslu formanns og gjaldkera fyrir árið 2006 og stendur félagið mjög vel fjárhagslega enda var ágætur hagnaður af EURO 2006 ráðstefnunni. Þó nokkrir fundir voru haldnir á fyrrihluta ársins 2006 auk þess sem félagið, í samvinnu við fleiri aðila, stóð að ráðstefnu um framleiðslustjórnun í leiðandi fyrirtækjum. Hápunktur ársins var þó án efa EURO 2006 ráðstefnan þar sem tæplega 1500 erindi voru flutt.

Nokkrar breytingar urðu á stjórn félagsins. Snjólfur óskaði eftir því að hætta í stjórn félagsins en hann hefur setið í stjórn þess frá árinu 1985. Birna óskaði einnig eftir því að hætta sem formaður en vinna áfram sem meðstjórnandi. Hlynur Stefánsson var kosinn formaður félagsins, en hann hefur setið í stjórn þess frá árinu 2002, nú síðast sem gjaldkeri. Tómas Philip mun taka við starfi gjaldkera og Eva Hlín við starfi ritara.

Eyjólfur Ásgeirsson var kjörinn nýr inn í stjórn. Eyjólfur starfar hjá AGR og Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið doktorsprófi í aðgerðarannsóknum.

Ákveðið var halda félagsgjöldum óbreyttum.

Snjólfur Ólafsson var gerður að heiðursfélaga ARFÍ fyrir áratuga starf í stjórn félagsins. Hann hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 1985 og var formaður félagsins allt frá stofnun þess til ársins 2001. Snjólfur hélt skemmtilegt kveðjuerindi á aðalfundinum um feril sinn í aðgerðarannsóknum og varpaði fram ýmsum spurningum um skilgreiningu aðgerðarannsókna.