Category Archives: Uncategorized

Fundur á morgun

Á morgun miðvikudaginn 21. mars mun Eyjólfur Ingi Ásgeirsson halda erindi á vegum ARFÍ. Eyjólfur er að útskrifast með doktorsgráðu frá Columbia University og vinnur sem kennari við Háskólann í Reykjavík og hjá AGR ehf.

Eyjólfur mun kynna verkefni þar sem nálgunarreiknirit og heuristics eru notuð til að smíða áætlanir og skipuleggja stór verkefni. Vandamálið sem Eyjólfur mun kynna á uppruna sinn hjá Pantex verksmiðjunni sem sér um viðhald og eyðingu á kjarnorkuvopnaforða Bandaríkjanna. Markmið verkefnisins er að finna góðar lausnir á erfiðu vandamáli á sem skemmstum tíma.

Boðið veður upp á kaffi og meðlæti.

Staður: Háskólinn í Reykjavík, Kringlan 1 (gamla Morgunblaðshúsið) stofa K5.

Tími: Miðvikudagur, 21. mars 2007, kl. 16:30 – 17:45

Aðalfundur 2007

Aðalfundur ARFÍ 2007 var haldinn í Tæknigarði HÍ, 8.febrúar síðastliðinn.

Farið var yfir ársskýrslu formanns og gjaldkera fyrir árið 2006 og stendur félagið mjög vel fjárhagslega enda var ágætur hagnaður af EURO 2006 ráðstefnunni. Þó nokkrir fundir voru haldnir á fyrrihluta ársins 2006 auk þess sem félagið, í samvinnu við fleiri aðila, stóð að ráðstefnu um framleiðslustjórnun í leiðandi fyrirtækjum. Hápunktur ársins var þó án efa EURO 2006 ráðstefnan þar sem tæplega 1500 erindi voru flutt.

Nokkrar breytingar urðu á stjórn félagsins. Snjólfur óskaði eftir því að hætta í stjórn félagsins en hann hefur setið í stjórn þess frá árinu 1985. Birna óskaði einnig eftir því að hætta sem formaður en vinna áfram sem meðstjórnandi. Hlynur Stefánsson var kosinn formaður félagsins, en hann hefur setið í stjórn þess frá árinu 2002, nú síðast sem gjaldkeri. Tómas Philip mun taka við starfi gjaldkera og Eva Hlín við starfi ritara.

Eyjólfur Ásgeirsson var kjörinn nýr inn í stjórn. Eyjólfur starfar hjá AGR og Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið doktorsprófi í aðgerðarannsóknum.

Ákveðið var halda félagsgjöldum óbreyttum.

Snjólfur Ólafsson var gerður að heiðursfélaga ARFÍ fyrir áratuga starf í stjórn félagsins. Hann hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 1985 og var formaður félagsins allt frá stofnun þess til ársins 2001. Snjólfur hélt skemmtilegt kveðjuerindi á aðalfundinum um feril sinn í aðgerðarannsóknum og varpaði fram ýmsum spurningum um skilgreiningu aðgerðarannsókna.

Aðalfundur

Aðalfundur ARFÍ var haldinn 2.júní síðastliðinn. Breytingar urðu á stjórn félagsins þar sem að Hálfdan Gunnarsson gaf ekki kost á sér til frekar stjórnarsetu. Tómas Phillip Rúnarsson, dósent við Véla-og iðnaðarverkfræðiskor var kjörin í stjórn félagsins og Hlynur Stefánsson var kjörin gjaldkeri félagsins.

Tekin var ákvörðun um félagsgjöld. Ákveðið var að hækka félagsgjald fyrirtækja úr 4.500 kr í 5.500 kr. og gjald fyrir aukafélaga úr 1.000 kr.í 1.500 kr. Félagsgjald verður óbreytt fyrir aðra félagsmenn.

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins verður haldinn föstudaginn 2. júní, kl. 16:00. Fundurinn verður haldinn í fundarherbergi á 3. hæð í Odda.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf:
1. Ársskýrsla formanns og gjaldkera og umræður.
2. Kjör fimm manna stjórnar og skoðunarmanns reikninga.
3. Ákvörðun félagsgjalds.
4. Önnur mál.

Allir velkomnir

EURO 2006

Okkur langar að segja frá því að dagana 3. – 5. júlí 2006 verða vel yfir 1000 manns á ráðstefnu á vegum ARFÍ í Reykjavík. Þetta er ráðstefna samtaka evrópskra aðgerðarannsóknafélaga sem verður núna haldin í fyrsta sinn á Íslandi.

Vefsíða ráðstefnunnar er www.euro2006.org

Mat okkar nú er að það verði um 1400 þátttakendur á ráðstefnunni og að flutt verði 1200-1300 erindi á þessum þremur dögum, en nokkur óvissa er um endanlegan fjölda. Erindi verða samtímis í flestum stofum í 5 byggingum Háskóla Íslands ásamt því að Háskólabíó verður notað fyrir opnunarathöfn, lokaathöfn og “semi-plenary” erindi og hádegismat fá ráðstefnugestir á Hótel Sögu.

Aðgerðarannsóknafélag Íslands (www.arfi.hi.is) stendur fyrir ráðstefnunni, með stuðningi Háskóla Íslands (verkfræðideildar og viðskipta- og hagfræðideildar).

Erindin á ráðstefnunni verða fjölbreytt, bæði fræðileg og hagnýt, og eflaust geta flestir fundið erindi sem eru áhugaverð fyrir þá. Erindunum er raðað í yfir 60 strauma, sem sumir ná yfir alla dagana en aðrir styttri tíma. Reiknað er með að um 30 erindi verði flutt samhliða. Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar um erindi er velkomið að senda tölvupóst til hlynur.stefansson@ic.ac.uk
Sem dæmi um strauma (með 12 – 40 erindi í hverjum) má nefna:

– Applied Probability
– Behavioural and Experimental Economics
– Combinatorial Optimization
– Computational Biology and Bioinformatics
– Financial Modelling
– Global Optimization: Deterministic and Stochastic Methods
– Long Term Financial Decisions
– Operations Management / Revenue Management
– Optimization in Financial Mathematics
– OR and Strategy
– OR in Health Care
– Transportation

Tímamörk fyrir “early registration” eru 1. apríl, en Íslendingar fá hér með leyfi til að greiða “early registration fee” ef þeir skrá sig fyrir 11. apríl. Við hvetjum því alla til að skoða heimasíðu ráðstefnunnar www.euro2006.org þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar og skrá sig á ráðstefnuna.

Velheppnuð ráðstefna um framleiðslustjórnun

Mjög góð mæting var á ráðstefnu Aðgerðarannsóknafélags Íslands og Vörustjórnunarfélagsins í gær miðvikudaginn 5. apríl 2006. Á ráðstefnunni var fjallað um mismunandi viðfangsefni og aðferðir sem leiðandi íslensk fyrirtæki kljást við og beita við framleiðslustjórnun. Fyrirlesarar voru frá Ölgerðinni, Össur, Actavis og AGR og fundarstjóri frá Strikamerki. Gestir komu frá fjölmörgum fyrirtækjum og einnig úr Háskólum. Þátttakendur voru almennt sammála um að fyrirlestrar hefðu verið áhugaverðir og að tekist hefði vel til í alla staði.

Ráðstefna um framleiðslustjórnun í leiðandi fyrirtækjum

Miðvikudaginn 5.apríl boða Aðgerðarannsóknafélag Íslands og Vörustjórnunarfélagið til ráðstefnu. Á ráðstefnunni verður fjallað um mismunandi viðfangsefni og aðferðir sem leiðandi íslensk fyrirtæki kljást við og beita við framleiðslustjórnun.

15:00 – 15:10 Setning og ávarp fundarstjóra
Sigurður Hjalti Kristjánsson, forstöðumaður lausna hjá Strikamerki hf.

15:10 – 15:35 Áætlanaferli frá sölu til framleiðslu hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar hf.
Valur Ásberg Valsson, áætlanastjóri mun fara yfir heildarferlið í áætlanagerð frá sölu til framleiðslu með áherslu á framleiðsluáætlanir.

15:35 – 16:00 Vörustjórnun og áætlanagerð hjá Össuri hf.
Björn Halldórsson og Helga Guðrún Snjólfsdóttir fjalla um hvernig framleiðslustýring hjá Össuri hefur þróast síðustu ár. Sagt verður frá grunnforsendum VMI (Vendor Managed Inventory) aðferðafræðinnar og reynslu Össurar af umbreytingu frá fyrra fyrirkomulagi framleiðslustýringar yfir í núverandi fyrirkomulag.

16:00 – 16:25 Framleiðsluáætlanagerð hjá Actavis hf.
Árni Hrannar Haraldsson, deildarstjóri áætlanadeildar fjallar um framleiðsluáætlanagerð hjá Actavis Hf. Farið verður í gegnum skipulagningu og stýringu pantana í gegnum framleiðsluferlið.

16:25 – 16:50 Nýr hugbúnaður til áætlanagerðar í framleiðslufyrirtækjum
Hlynur Stefánsson og Haukur Hannesson frá AGR ehf. kynna nýja hugbúnaðarlausn til áætlanagerðar, verkniðurröðunar og birgðastýringar í framleiðslufyrirtækjum sem verið hefur í þróun með samvinnu Actavis hf. undanfarin ár. Hugbúnaðurinn byggir á APS aðferðafræðinni og styður þróaða og sveigjanlega framleiðslustjórnun.

16:50 + Umræður og ráðstefnuslit

Staður: Grand Hótel. Fundarsalurinn Hvammur.
Tími: Miðvikudagurinn 5. apríl kl. 15:00

Verð fyrir félagsmenn: kr. 2.000
Námsmenn: kr. 2.000
Aðrir: kr. 3.900

Skráning á ráðstefnuna fer fram á info@gs1.is

Aðgerðagreining við MIT og rannsóknir á heilbrigðisgögnum (e. claims data)

Miðvikudaginn 4. janúar, 2006, mun Margrét Bjarnadóttir doktorsnemi við MIT halda erindi á vegum ARFÍ.
Erindi Margrétar verður tvíþætt, annars vegar mun hún kynna uppbyggingu meistara og doktorsnáms í aðgerðagreiningu við MIT og hins vegar mun hún kynna rannsóknir sínar á sviði spálíkana byggða á heilbrigðisgögnum (e. claims data).

Í rannsóknum sínum sýnir hún fram á að túlkanlegar tölfræðiaðferðir svo sem flokkanatré og klösun gefi betri spá-niðurstöður en leiðandi hugbúnaður á þessu sviði. Þá mun hún einnig fjalla um aðrar rannsóknarspurningar sem hægt er að svara með þessum gögnum.

Staður: Oddi, Stofa 101
Tími: Miðvikudagur 4. janúar, 2006 kl. 16:30– 18.00.

Allir velkomnir

Framtíðarsýn vörustjórnunarkennslu á Íslandi

Fimmtudaginn 15. desember mun Vörustjórnunarfélag Íslands bjóða til heimsóknar í Háskóla Reykjavíkur og stjórnendur þar ætla að vera með kynningu á námi í “Tækni og verkfræðideild” sem og “Viðskiptadeild”.

Eins og flestir vita sameinuðust Tækniháskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur fyrr á þessu ári og í kjölfarið hafa nokkrar námsbrautir tekið nokkrum breytingum. Meðal annars hefur Vörustjórnun, í því formi sem hún var kennd í Tækniháskóla Íslands, tekið töluverðum breytingum og er heiti kynningarinnar sem stjórnendur skólans halda: “Framtíðarsýn vörustjórnunarkennslu á Íslandi”

Kynningin hefst kl 16:30 og stendur til 17:30
Mæting í anddyri skólans við Ofanleiti 2

Allir velkomnir

Notkun aðgerðarannsókna hjá Georgia-Pacific

Þriðjudaginn 29.nóvember mun Gestur Þórisson véla- og iðnaðarverkfræðingur fjalla um notkun aðgerðarannsókna hjá Georgia-Pacific í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði um fjögurra ára skeið. Aðalumræðuefnið verður bestunarlíkan sem Gestur þróaði og notað er fyrir framleiðsluskipulagningu og dreifingu á vörum félagsins. Rætt verður um hvernig líkanið nýtist við áætlanagerð, stefnumótun og hagræðingu í rekstri svo eitthvað sé nefnt. Einnig mun Gestur lauslega fjalla um störf sín er lúta að verðlagningu á vörum félagsins.

Hjá Georgia-Pacific starfa um 55,000 starfsmenn á um 300 starfsstöðvum. Fyrirtækið hefur verið á Fortune 500 listanum frá upphafi og er með um $20 milljarða í veltu. Framleiðsluvörur Georgia-Pacific eru flest það sem búið er til úr trjám svo sem byggingavörur og pappír. Félagið er einn allra stærsti viðskiptavinur flutningafyrirtækja í Bandaríkjunum. Stærstu viðskiptavinir félagsins eru Wal-Mart og Home Depot.

Gestur Þórisson útskrifaðist með B.Sc. frá véla- og iðnaðarverkfræðiskor H.Í. árið 1999 og M.Sc. í aðgerðarannsóknum frá Georgia Institute of Technology árið 2001. Að námi loknu vann Gestur hjá Georgia-Pacific fyrst sem sérfræðingur í aðgerðagreiningu því næst sem yfirmaður framleiðsluskipulagningar og bestunar, og að lokum sem yfirmaður viðskiptaþróunar sölu- og markaðsmála. Gestur flutti heim frá Bandaríkjunum í sumar og starfar nú í fyrirtækjaráðgjöf KB Banka.

Staður: Tæknigarður, salur inn af kaffistofu
Tími: Þriðjudagur 29. nóvember, 2005, kl. 16.30

Allir velkomnir.